Volkswagen T-Roc

T-Roc er fimm manna borgarjepplingur frá Volkswagen. Hann er fagurlega hannaður og hentar vel í íslenskum aðstæðum. Heimili Volkswagen á Íslandi er hjá Heklu.

Bíllinn sem fenginn var til reynsluaksturs var sjálfskiptur, fjórhjóladrifinn, dísel bíll sem notaði 6,0 lítra á hverjum hundrað eknum kílómetrum. Sú eyðsla er að mati undirritaðs mjög góð.

Akstursupplifunin er áhugaverð, T-Roc er lipur og skemmtilegur og nógu kraftmikill til að gaman sé að keyra bílinn. Fjöðrunin er mjög góð, hann er ólíkt Emmsjé Gauta ekki mikið að vagga og velta. T-Roc steinliggur í hringtorgum og þar sem vegurinn er ekki alveg beinn.

Hvað langkeyrslu varðar er mjög gott að keyra T-Roc, hann er nokkuð vel hljóðeinangraður og á þjóðvegum landsins er hann seint skilinn eftir. Hann fer vel með ökumann og farþega.

Útlit bílsins er skemmtilegt að mati blaðamanns, línurnar eru mjög skýrar, hann var greinilega hannaður af nefnd, það eru engar línur sem eru ekki á réttum stað, engar línur sem vekja óhug og heildarútlitið samsvarar sér mjög vel. Hann hentar sjálfum sér mjög vel. (Það er að segja, útlitið passar aksturseiginleikunum).

Umgengni við T-Roc er mjög þægileg, að koma út á blautum og köldum þriðjudagsmorgni og setjast upp í T-Roc-inn sinn litla, hlýjar jafnvel hörðustu nöglum um hjartaræturnar. (Get ég ímyndað mér, ég myndi seint teljast harðasti naglinn í þaksaumspakkanum). T-Roc er eins og Rottweiler hvolpur, krúttlegur en grjótharður.

Pláss í skotti er ágætt, betra en á mörgum bílum í sama stærðarflokki. Hins vegar er ekki pláss fyrir mörg golfsett þar, kannski tvö.

 

Staða ökumanns er góð og útsýni yfir veg og nánasta umhverfi er gott. Það fer einnig vel um farþega. Fótapláss aftur í er sæmilegt, gott í innri samanburði borgarjepplinga.

Afþreyingarkerfið er afbragðs gott, það er góður skjár í því og það er einkar einfalt í notkun. Aksturseiginleikar bílsins koma með fjórum stillingum; Sport, Eco, Normal og snjóstillingu.

Ætti ég að kaupa T-Roc?
það má vel mæla með því. Bíllinn er skemmtilegur og þægilegur eins og komið hefur fram en þar að auki er hann flottur og flennifær í íslenskum aðstæðum, sérstaklega í fjórhjóladrifinni útfærslu.

Það er vert að nefna að T-Roc er á góðu verði, hann byrjar í 3.290.000 kr. en fjórhjóladrifinn bíll byrjar í 4.490.000 en sá er einnig orðinn sjálfskiptur og dísel.