Toyota Hilux

Toyota Hilux er pallbíll frá Toyota, bíll sem er íslenskari en kjötsúpan og er einungis á eftir Eurovision og EM í Frakklandi í fyrrasumar í uppröðun uppáhalds hluta þjóðarsálarinnar.

Bíllinn sem fenginn var til reynsluaksturs var VX útgáfan, nánar tiltekið; Double Cap með 6 þrepa sjálfskiptingu. Hann notaði 8,7 lítra af dísel á hverjum 100 eknum kílómetrum í blönduðum akstri.

Fjöðrunin í bílnum sem reynsluekið var er hönnuð til að vinna. Hann er á fjöðrum að aftan sem gerir hann helst til hastan en þó ekki þannig að það sé til ama. Sé Hiluxinn notaður í vinnu annað hvort við að draga kerrur, vagna eða hvað eina annað eða til að bera á pallinum einhverskonar hlass mun fjöðrunin virka sem skyldi og mýktin aukast.

Eins er það reynsla blaðamanns að eftir því sem vegirnir sem Hilux er boðið upp á verða erfiðari þá þjónar bíllinn ökumanni betur. Ekki það að hann sé einungis nothæfur á grófum malarvegum. Hann er góður á malbiki en hann er enn betri í aðstæðum þar sem aðrir væru farnir að ströggla.

Innvolsið í bílnum er vel hannað, það má segja að hagnýttni og enfaldleiki ráði þar ríkjum. Tímanum hefur verið varið í að velja það sem á þarf að halda í nútíma bíl. Allt umfram glingur má finna í einhverjum öðrum bílum. Hilux Double Cap er rúmgóður að innan og fótapláss aftur í er nokkuð gott. Nóg höfuðpláss er fyrri fullorða í öllum sætum í bílnum.

Bíllinn er búinn allri helstu nútíma-afþreyingartækni, hann er tengjanlegur við snjallsíma í gegnum þægilegt afþreyingarviðmót. Það er ekki yfir neinu að kvarta þar.

Það er gott að keyra Hilux í langkeyrslu og í veiðislóðaakstri er sennilega afar erfitt að keppa við hann.

Staða ökumanns er mjög góð og maður sér vel í kringum sig sem getur verið nauðsynlegt ef á að finna slóða sem hugsalega geta ögrað Hilux. Það er ólíklegt að þeir finnist svo glatt.

Ætti ég að kaupa Hilux?
Vantar þig bíl til að sinna erfiðisvinnu fyrir þig? Þarftu að draga hluti, ferja hluti eða komast að hlutum á afskekktum stöðum? Þá er Hilux klárlega bíllinn í verkið!

Væri tilgangurinn með kaupunum að nota hann hversdags til aksturs innan borgarmarkanna eða skjótast í sumarbústað þegar vel viðrar og kannski annað slagið aka malarveg, þá mætti velta fyrir sér hvort Rav4 eða Range Rover Evoque myndi ekki þjóna tilgangnum betur. Hilux i þessu hlutverki myndi svínvirka en það væri eins og Vilborg Arna, Everest-fari myndi vera að ganga upp og niður af Kögunarhól, hún færi létt með það en getur svo mikið meira.

Jeppar
Raun eyðsla
Hestöfl
Útlit
Gæði
Kalt mat
Verð kr.
Evoque
7,8 lítrar
150-240
9
9
9
5.990.000 – 11.290.000
F-Pace
7,9 lítrar
180-380
9
9
10
7.290.000-14.390.000
Hilux
8,7 lítrar
150
7
8
10
5.350.000 – 7.190.000