Toyota Corolla

Toyota Corolla er fimm manna stallbakur. Corolla hefur lengi vel verið einn vinsælasti bíll landsins. Hefur nýjasta Corolla-n það sem sem fyrirrennarar hennar höfðu?

Bíllinn sem fenginn var til reynsluaksturs var sjálfskiptur bensínbíll sem notaði 7,3 lítra á hverja hundrað ekna kílómetra.

Útlitið er fínt og stílhreint, framendinn er rúnaður og minnir á Honda Civic. Hurðarnar eru þéttar og þær hljóma sannfærandi þegar þeim er lokað.

Innvols bílsins er afar hefðbundið en í nútímalegum búning. Það er snertiskjár og USB tengi, Aux tengi og bakkmyndavél. Innréttingin sjálf er einföld og lítið annað en akkurat það, einföld. Smá krydd, smá bragð og smá dirfska í hönnun hefði gert svo margt fyrir innréttinguna.

Staða ökumanns er mjög góð, sætin eru þægileg og bíllinn fer vel með fólk. Fótapláss í aftursætum er afskaplega gott. Eftir að blaðamaður hafði stillt bílstjórasætið eins og hentaði, þá var samt nóg pláss aftur í hnén snertu ekki einu sinni framsætið þegar setið var aftur í.

Bíllinn er þægilegur í akstri, hann er mátulega sprækur og nokkuð þýður. Eins og áður sagði fer bíllinn vel með alla sem í honum sitja. Skottið er frekar stórt.

Bíllinn gæti hentað vel fyrir hvern sem er eiginlega en ef þig langar í nettan og sprækan hlaðbak væri Auris líklega hentugari kostur fyrir þig.

Ætti ég að kaupa Corolla?
Bíllinn er klassískur afa-bíll, hönnunin er einföld og aflið mátulegt. Mottóið virðist að mati blaðamanns hafa verið að smíða góðan bíl sem hrærir ekki við neinu um hugmyndir fólks um Toyota Corolla. Ef þú hefur átt Corollu þá veistu að hverju þú gengur en ættir samt að hugsa þig um, Toyota Auris eða jafnvel hlaðbakar annarra bílaframleiðanda, Peugeot 308 eða sambærilegir bílar gætu hentað betur.

Stallbakar
Raun eyðsla
Hestöfl
Útlit
Gæði
Kalt mat
Verð kr.
Corolla
7,3 lítrar
90-132
7
8
7
3.320.000 – 4.280.000
Avensis
7,8 lítrar
112-147
7
8
7
3.890.000 – 6.070.000
C-Class
10,2 lítrar
116-510
9
10
9
6.240.000 – 16.670.000