Suzuki S-Cross er fimm manna jepplingur frá japanska framleiðandanum Suzuki sem lengi hefur haft bíla sína til sölu á Íslandi við mjög góðan orðstír. Suzuki í Skeifunni er heimili Suzuki bíla á Íslandi.
Bíllinn sem fenginn var til reynsluaksturs var sjálfskiptur bensínbíll af GLX gerð, sem notaði 8 lítra á hverjum hundrað eknum kílómetrum.
Bíllinn er léttur, lipur og löðrandi sprækur. Það er mjög skemmtileg reynsla að setjast upp í S-Cross og taka hann til kostanna í snjónum sem var þegar reynsluaksturinn fór fram. Væntingar blaðamanns til bílsins voru miklar þegar reynsluaksturinn hófst, enda Suzuki rótgróið vörumerki. S-Cross stóð sig mjög vel og fór fram úr öllum væntingum.
S-Cross er fjórhjóladrifinn, auk þess sem hægt var að stilla aksturseiginleika bílsins. Hann býður upp á Sport stillingu, Auto og snjó. Þegar snjóstillingin er notuð er hægt að setja læsingar á, svona ef skaflarnir verða ógnvekjandi. Stillingarnar virka mjög vel og greinanlegan mun er að finna á eiginleikum bílsins eftir því í hvaða stillingu hann er.
Útlit bílsins er nokkð gott, hann er smekklegur, snyrtilegur og laus við öll látalæti. Sama má segja um hönnun innra byrðis S-Cross. Þar er allt þar sem það á að vera.
Bíllinn sem fenginn var til reynsluaksturs hafði upp á að bjóða gott leiðsögukerfi í mjög þægilegu afþreyingarkerfi. Stjórnborð miðstöðvar var einnig þægilegt í notkun.
Þá hafði reynsluakstursbíllinn upp á að bjóða atriði sem juku á ánægjuna við akstursinn, þar á meðal má nefna glerþak sem hægt er að opna og flipaskiptingu í stýrinu, sem gefur bílum alltaf frekar sportlegt yfirbragð.
Bíllinn er smár í sniðum miðað við marga af hans helstu keppinautum. Hins vegar er það ekki að finna þegar maður sest inn í hann að um sé að ræða smávaxinn bíl. Hann er kannski lítill utan frá en hann er með stórt hjarta.
Hann er nokkuð rúmgóður, bæði er þokkalegt fótapláss aftur í en einna helst ber að nefna skottið sem er oft afar lítið í þessum bílum en það er ekki hægt að kvarta yfir því í S-Cross.
Ætti ég að kaupa S-Cross?
Já, ef þig langar í jeppling sem hefur allt, en er líka auðveldara að leggja en öðrum jepplingum. Hann hefur einnig upp á að bjóða mikla getu í veðrum sem oft skella á okkur hér á Íslandi. Hann hentar því afar vel í íslenskum aðstæðum, hann er bæði lítill svo hann smellur auðveldlega í þröng bílastæði (sem eru sérstakt áhugamál íslenskra bílastæðamálara) og svo kemst hann allt í snjónum.*