Range Rover Velar

Range Rover Velar er nýr fimm manna jeppi/jepplingur* sem er miðað á milli Range Rover Evoque og Range Rover Sport eða Range Rover í fullri stærð. Velar er til sýnis í glæsilegum nýjum sýningasal BL á Hesthöfða. Salurinn er jafnframt nýtt heimili Jaguar – Land Rover á Íslandi, umboðsaðili Jaguar – Land Rover er BL.

Bíllinn sem fenginn var til reynsluaksturs er af SE útfærslu, með 240 hestafla dísel vél. Hann er með átta þrepa sjálfskiptingu. Reynsluakstursbíllinn notaði 8,5 lítra á hverjum hundrað eknum kílómetrum í blönduðum akstri.

Hann er hlaðinn búnaði t.d. er nudd í sætum, sætis hiti bæði í fram- og aftursætum, það er kæling í framsætum.

 

Innréttingin er mjög stílhrein, hún er afar einföld í útliti en glæsileg á sama tíma (sem er eiginlega skilgreiningin á stílhreinum hlutum).

Með einfaldri innréttingu á ég við að það er ekkert glingur, það eru þrír takkar í innréttingunni og tveir stórir snertiskjáir. Snertiskjáirnir eru notaðir til að stýra helstu aðgerðum. Þeir haka í glæsileika-boxið í skilgreiningu á stílhreinu hér að ofan.

Innvols bílsins er allt hannað með þennan stílhreina einfaldleika í huga, sem er vel. Það er gaman að hlutum sem eru glæsilegir en virka bara svo vel. Þessi bíll er eins og iPhone að mörgu leyti, það er hægt að segja hvað sem er um iPhone, en þeir bara virka og virka vel.

Aksturseiginleikar bílsins eru góðir, hann er mjög rásfastur og gefur lægri og vígalegri sportbílum ekkert eftir hvað það varðar. Hann er á sama tíma þægilegur, jafnvel þó fjöðrunin sé temmilega stíf til að gefa sportlega aksturseiginleika. Þá eru hraðahindranir og holur alls engin kvöl og pína, þvert á móti, þá kemur Velar á óvart með getu sinni til að tækla slíkar leiðindaskjóður.

Sætin eru afar þægileg og allt umhverfi í bílnum vel úthugsað. Það er ekki yfir neinu að kvarta þar. Velar er auk þess hljóðlátur.

Aftursætin eru mjög góð en tveir fullorðnir geta komið sér afar vel fyrir þar með gott rými fyrir fæturna. Það er þrengra um ef sá þriðji ætlar að bætast við, en það er alveg gerlegt. Þröngt mega sáttir sitja og allt það…

Útlit bílsins er smekklegt og stílhreint, þarf að fara eitthvað nánar í hvað það þýðir?

Ætti ég að kaupa Range Rover Velar?

Það er óhætt að mæla með Velar við nánast hvern sem er, auðvitað kostar hann. Hann er hverrar krónu virði ef þú hefur efni á að skilja við krónurnar.

Velar er einskonar Gullbrá í Range Rover flotanum, hann er svona akkurat mátulegur.

*Hvort Velar er jeppi eða jepplingu er deila um keisarans skegg. Þetta er frábær bíll.