Renault Talisman

Renault Talisman er fimm manna fólksbíll frá Renault. Talisman er bæði hægt að fá sem skutbíl eða stallbak. Honum er ætlað að vera flaggskip Renault flotans. Heimili Renault er hjá BL, Sævarhöfða.

Bíllinn sem fenginn var til reynsluaksturs var sjálfskiptur, díselbíll sem notaði 5,9 lítra á hverjum hundrað eknum kílómetrum.

Talisman er afar hljóðlátur, það berst lítið sem ekkert veghljóð inn í bílinn. Hann er þar að auki þéttur og vel smíðaður.

Innréttingin er vönduð og vel sett saman. Afþreyingarkerfið er helst til flókið en þegar maður hefur lært á það er lítið mál að framkvæma allar þær aðgerðir sem maður vill í gengum það.

Eins og flaggskip almennt er Talisman frekar langur og breiður. Hann er samt ekki svo stór að hann valdi vandræðum í akstri eða þegar verið að leggja honum.

Þrátt fyrir að vera vel útbúinn og þéttur bíll er Talisman snöggur og mátulega sprækur. Bíllinn er afar lipur og lætur vel af stjórn. Auðvitað er meira afl alltaf betra… Það er alveg sama hversu mikið aflið er fyrir.

Fjöðrunin er einstök í þessum bíl. Eins og fram hefur komið er Talisman stór fólksbíll og vel útbúinn. Fjöðrunin er heldur betur starfi sínu vaxin og er sem ökumaður og farþegar líði áfram. Samspil fjöðrunarinnar og vélarinnar gera það að verkum að fólk um borð líður áreynslulaust áfram.

Vegna fjöðrunarinnar og góðrar hljóðeinangrunnar er engin hætta á að ökumaður þreytist við aksturinn. Þá má ekki gleyma nuddinu í bílstjórasætinu sem er staðalbúnaður. Má ímynda sér að Talisman henti einkar vel í leigubílaakstur og fyrir fimm manna fjölskyldu, hann er rúmgóður.

Fótapláss aftur í er býsna gott og skottið rúmgott. Talisman er þægilegur í umgengni.

 

Útlit bílsins er skemmtilega sportlegt að mati blaðamanns. Hann er snyrtilegur, smekklegur en reffilegur allt í senn. Falleg frönsk hönnun eins og venjulega hjá Renault.

Ætti ég að kaupa Talisman?
Vanti þig eyðslugrannan, stóran fjölskyldubíl þá er það ekki spurning, Talisman er bíll sem þú þarf að skoða. Hann er á góðu verði fyrir svona stóran og mikinn bíl. Bíllinn kemur að staðaldri kletthlaðinn eins og það er orðað í bransanum.