Range Rover Evoque

Range Rover Evoque er fimm manna jepplingur sem hefur sportlegt yfirbragð. Bíllinn er afar þægilegur í akstri og vel er til vandað þegar kemur að samsetningu bílsins.

Bíllinn sem fenginn var til reynsluaksturs var sjálfskiptur díselbíll sem notaði 7,8 lítra af eldsneyti á hverjum hundrað eknum kílómetrum.

Gæði og munaður eru fyrstu orðin sem koma upp í hugann þegar blaðamaður sest niður til að skrifa lýsingu á bílnum. Hann er afar fallega hannaður og sérstaklega er innréttingin skemmtileg. Innréttingin er nánast fullkomlega látin vega salt á milli hámarks notagildis og stílhreinnar hönnunar. Takkarnir eru þægilega staðsettir og virka afar gegnheilir við snertingu.

Bíllinn er að mati blaðamanns fallegur í útliti og línurnar sem einkenna Range Rover Evoque eru ferskar og nýstárlegar. Bíllinn hefur þann hæfileika að vera sportlegur en töluvert rúmgóður. Utan frá séð virkar höfuðplássið aftur í ekki nóg fyrir fullorðinn farþega, reyndinn er hins vegar önnur.

Fótapláss aftur í var ágætt og skottið er nokkuð gott. Staða ökumanns er góð, það er góð yfirsýn yfir veginn framundan og góð sýn til hliðanna, blindu blettirnir eru ekki mjög stórir eins og oft vill verða á bílum sem hafa sportlegt yfirbragð.

Aksturinn er skemmtilegur, þægilegur og þarf ekkert endilega að taka enda. Löngunin til að halda áfram að keyra bílinn er mjög sterk. Lífsskoðunin sem byggir á því að ferðalagið sé mikilvægara en áfangastaðurinn á afar vel við um Range Rover Evoque. En spekin myndi útleggjast „it´s the journey not the destination that matters,“ á frummálinu.

Hljóðgæðin eru góð, hátalararnir virka vel og hljómurinn úr þeim góður. Bíllinn er í ofanálag mjög hljóðlátur.

Ætti ég að kaupa Range Rover Evoque?
Ef lúxus og gæði eru það sem þú leitar að þegar kemur að því að velja jeppling eru fáir bílar sem komast nálægt Range Rover Evoque, nema þá kannski Land Rover Discovery Sport. Bíllinn er mjög góður, jepplingur sem gæti hentað öllum.

Range Rover Evoque er þó ekki ódýr bíll, ódýrasta týpan kostar 7.990.000 kr. Það er því matsatriði fyrir hvern að gera upp við sjálfan sig hvort hann er þess virði, blaðamaður myndi þó ætla að flestir sannfærist auðveldlega um að svo sé við reynsluakstur.

Jepplingar
Raun eyðsla
Hestöfl
Útlit
Gæði
Kalt mat
Verð kr.
Discovery Sport
6,5 lítrar
150-240
8
9
9
7.190.000 – 10.690.000
S-Cross
6,7 lítrar
120
8
8
8
3.890.000 – 5.980.000
Captur
5,9 lítrar
90
8
7
7
3.390.000 – 3.690.000
Evoque
7,8 lítrar
150-240
9
9
9
7.990.000 – 12.790.000
Tucson
8,8 lítrar
140
8
8
8
4.790.000 – 7.190.000
Vitara
8,0 lítrar
136-177
8
8
8
4.980.000 – 5.360.000
NX 300h
8,7 lítrar
197
9
9
9
7.150.000