Peugeot 3008

3008 er margverðlaunaður jepplingur frá Peugeot, heimili Peugeot á Íslandi er hjá Brimborg.

Bíllinn sem fenginn var til reynsluaksturs var sjálfskiptur, dísel bíll sem notaði 6,5 lítra á hverjum hundrað eknum kílómetrum.

Peugeot 3008 er sem fyrr segir margverðlaunaður og er bíll ársins bæði að mati íslenskra og evrópskra bílablaðamanna.

Þetta verður einskonar óður til þessa bíls, bara svo það komi fram í upphafi. Byrjum á innvolsinu.

Innréttingin er ein sú fflottasta sem sést hefur í bíl, hún er öðruvísi en maður á að venjast, hún er fáguð og það er klassi yfir henni en hún hefur dass af töffaraskap.

Takkarnir í innréttingunni minna helst á takka úr orustuflugvélum, sem er afar svalt.

Bíllinn er sprækur og tekur duglega á þegar honum er gefið inn. Það eykur akstursánægjuna að vita að maður geti gefið í þó maður geri það ekki endilega.

Hægt er að stilla bílinn á snjó-, sand- og malarstillingar, einnig er boðið upp á normal og sport stillingar.

Staða ökumanns er mjög góð, sætin eru þægileg, flott og halda vel við ökumann, svo hann hreyfist ekki mikið, sem er vel því veggripið þeytir manni í gegnum beygjur á meiri ferð en trúanlegt er af bíl í þessum stærðarflokki.

Peugeot hraðastillirinn (Cruise Control) er afskaplega þægilegur í notkun. Strax í annarri tilraun varð blaðamanni ljóst hvernig hann virkar og þá varð eftirleikurinn auðveldur, undirritaður krúsaði um allt.

Bíllin er af mátulegri stærð, það er margt til mikils þegar kemur að rúmmáli bílsins. Fótaplássið aftur í er vel skammtað og kemur á óvart. Eins er farangursrýmið rúmgott.

Ætti ég að fá mér Peugeot 3008?
Já, það er hvergi á landi hér hægt að fá betri díl á nýjum bíl.*

Hann hentar afar breiðum hópi fólks, verðið er aðlaðandi fyrir alla, umgengni um bílinn er sérstaklega þægileg og sú staðreynd að sest er inn í bílinn en ekki niður í hann eða upp í hann er hentug eldri kynslóðinni og útlitið hentar kannski heldur þeim yngri.

Barnafjölskyldur, sumarbústaðaeigendur með barnabörn og allir þar á milli gætu sómað sér vel á 3008. Bíllinn er fáanlegur fyrir 3.740.000 kr. sem er ekkert verð fyrir þennan pening. Vel búinn dísel bíll, sjálfskiptur og allt er á 4.390.000 kr.

*Af þeim bílum sem blaðamaður Bílabálks hefur prófað hingað til hefur hvergi verið um meiri gæði að ræða á sama eða lægra verði.