Nissan Navara

Nissan Navara er fimm manna jeppi frá Nissan sem þarf að keppa á erfiðum markaði og það gerir Navara vel. Heimili Nissan á Íslandi er hjá BL Sævarhöfða.

Bíllinn sem fenginn var til reynsluaksturs var af Tekna útgáfunni sem er dýrasta útgáfan og sú best búna. Hann notaði 9,8 lítra af dísel á hverjum hundrað eknum kílómetrum. Hann er sjálfskiptur og býr yfir lágu drifi.

Navara er þeim eiginleikum gæddur að vera ekki drekkhlaðinn óþarfa, hann er með allt sem þarf, en ekkert meira. Innréttingin er ekki að drukkna í tökkum sem stilla birtuna á sjónvarpinu heima hjá nágranna þínum. Það sem er í Navörunni er það sem þarf.

Navara er góður pallbíll sem er ekki upptekinn að því að þykjast vera meira en hann er. Navara hefur allt sem pallbíll þarf að hafa. Sem er gott tog, mátulega öflug vél, þægileg sæti til langaksturs, mikla burðargetu og góða fjöðrun.

Fjöðrunin í Navörunni er svo miklu betri en í helsta keppinaut hennar, Toyota Hilux. Fjaðrir hafa aldrei virkað, af hverju Toyota hangir á þeim í Hilux-num er óskiljanlegt. En það er annað mál.

Navaran er með þannig fjöðrun að hann sýgur upp holur, þvottabretti og hraðahindranir og má segja að um lúxus vinnuþjark sé að ræða.

Útlit bílsins er stílhreint og hann samsvarar sér vel. Hann gæti alveg eins vel átt heima fyrir utan Byko með lagnaefni pallinum og hesta í kerru og fyrir utan Þjóðarbókhlöðuna í eigu skjalavarðar sem viðrar hundana sína um helgar. Harðkjarna skjalavarsla og strangheiðarlegur iðnaður, allir finna sig í Navörunni.

Innréttingin er einföld, allt er á vísum stað. Miðstöðin er einföld, aksturstölvan þægileg og aðgerðir í stýrinu skýrar.

Staða ökumanns er góð, ökumaður situr hátt og uppréttur í sætinu sem gefur góða yfirsýn. Aksturseiginleikar Navörunnar eru góðir, hann liggur vel á veginum og það er skemmtilegt að keyra hann.

Ætti ég að kaupa Navöru?
Ef þú ert á markaðnum í leit að pallbíl eða jeppa, skaltu ekki leita mikið lengur. Nissan Navara hefur allt sem jeppar þurfa.

Það er óhætt að mæla með Navöru og legg ég svo á og mæli um að nýja Navaran sé sá pallbíll sem náð hefur mestum framförum á milli kynslóða… í pallbíla sögunni.