Mitsubishi Outlander – PHEV

Mitsubishi Outlander er jepplingur frá japanska bílaframleiðandanum Mitsubishi sem hefur selst gríðarlega, gríðarlega vel hér á Íslandi undanfarið hálfa árið eða svo. Heimili Mitsubishi er hjá Heklu.

Bíllinn sem fenginn var til reynsluaksturs var af Intense útgáfunni, sjálfskiptur, tengitvinnbíll sem notar bensín á móti rafmanginu. Eins og með aðra tengiltvinnbíla er fullkomlega tilgangslaust að setja fram eyðslutölu enda fer eyðslan algjörlega eftir notkunarmynstri hvers og eins.

Bíllinn er þéttur, hljóðlátur og það kom skemmtilega á óvart hversu lítið veghljóð barst inn í bílinn.

Krafturinn sem verður til með samvinnu eldsneytis og rafmangs er mjög skemmtilegur og raunar fremur mikill, svona fyrir fjölskyldujeppling að vera, sem er jákvætt, aldrei of mikið afl.

Bíllinn er allur frekar rúmgóður, rými fyrir bílstjóra og farþega fram í er gott og það fer vel um ökumann og alla farþega hans. Fótaplássið aftur í er gott og sama má segja um farangursrými í skotti.

Bíllinn er fjórhjóladrifinn og drifið svínvirkar í íslenskustu aðstæðum sem hægt er að ímynda sér. Við reynsluaksturinn var snjór eina stundina og svo slabb og slydda þá næstu, því næst fraus og göturnar urðu flughálar. Engin þessara aðstæðna var nógu ögrandi til að skapa vandræði fyrir Outlander-inn. Eins og allir vita þá eru þessar aðstæður væntanlegar á Íslandi alla daga ársins nema rétt yfir jólinn, eins og Jón Gnarr orðaði það forðum daga.

Afþreyingarkerfið í Intense útgáfunni er ekki það besta sem fáanlegt er í þessum bílum, en virkar þó. Skjárinn er betri og stærri í ódýrari útgáfum.

Hægt er að velja hvort rafhlöðurnar eru að hlaðast eða eru nýttar til að knýja bílinn áfram og þá má velja hvort þær standa einar í því eða þyggja aðstoð frá bensínvélinni í hybrid stillingu. Til að hlaða rafhlöðurnar nýtir bíllinn hemlun og akstur niður brekkur til að hlaða sig. Það er hægt að stilla viðnámið sem Outlander veitir þegar inngjöfinni er sleppt, því meira viðnám, því meiri hleðsla á sér stað. Með æfingu má aka innanbæjar, nánast án þess að snerta bremsurnar.


Ætti ég að kaupa Outlander?
Já, ef þig vantar jeppling og langar í tengitvinnbíl. Sölutölur eru hærri en nokkurn hefði getað órað fyrir. Spámenn geta svo giskað á hvernig endursala bílanna verður.

Kalt mat blaðamanns er að bíllinn sé góður en hann vanti kynþokka. Það er kannski atriði sem skiptir ekki alla máli, enda afar bíllinn góður.