Mini Countryman PHEV

Countryman er fimm manna jepplingur frá Mini sem kemur í tengiltvinn útgáfu. Heimili Mini á Íslandi er hjá BL á Sævarhöfða.

Bíllinn sem fenginn var til reynsluaksturs var sex gíra sjálfskiptur, tengiltvinnbíll sem býður upp á 224 hestöfl og 385 NM tog. Hann er þar að auki fjórhjóladrifinn og því tilvalinn í baráttuna við íslenskar aðstæður.

Það á við um þennan bíl eins og aðra tengiltvinnbíla að það er tilgangslaust að mæla eldsneytisnotkun í þeim. Það eru svo mörg atriði sem geta haft áhrif á eyðsluna, þá einna helst hversu duglegt fólk er að hlaða bílana sína.

Aksturseiginleikar bílsins eru skemmtilegir og það er afskaplega gaman að keyra hann. Hann er gríðarlega kraftmikill. Countryman hefur upp á að bjóða nokkrar aksturstillingar og það er sem hamskipti eigi sér stað, sérstaklega þegar hann er settur í Maximum Go-kart feel – Sport mode, sem er eitruð akstursstilling. Hann er greinilega vel hannaður.

Innréttingin er uppfull af hringlóttum áherslum. Hún er skemmtilega öðruvísi og minnir um margt á línur í útliti bílsins og þá sérstaklega framljós hans. Takkarnir í innréttingunni minna einna helst á takkana í orustuþotum. Þeir fara upp og niður, leita alltaf í miðjuna en þá skal nota til að velja eina af þremur stillingum, það þarf því aðeins að venjast tökkunum. Það gæti verið að þú þurfir að ýta tvisvar niður eða upp.

„Countryman hefur yfir sér krúttlegt yfirbragð hvað útlit varðar. Hann er greinilega afkomandi hins goðsagnakennda Austin-Mini. Línurnar eru sambærilegar, það er bara stærri bíll undir línunum og því lengra á milli þeirra.“

Countryman er rúmgóður bíll, enda frekar stór. Fótaplássið aftur í er nokkuð gott og skottið er fínt, einir 450 lítrar. Stærðarinnar vegna verður hann flokkaður hér sem jepplingur. Það er aukinheldur vegna þess að það nokkuð hátt undir hann.

Staða ökumanns er gott. Bílstjóri og farþegar sitja nokkuð uppréttir í Countryman, sem er ágætt út af fyrir sig, það býr til góða yfirsýn yfir veginn framundan.

Ætti ég að kaupa Countryman?
Ef útlitið heillar þig þá er þetta klárlega bíll fyrir þig. Hann er hrottalega skemmtilegur í akstri. Countryman er á heildina litið frekar nýtilegur bíll sem fer vel með fólkið um borð.

Hann byrjar í 5.490.000 kr. og fyrir það er BL að bjóða hellings bíl hreinlega. Þessir aksturseiginleikar sitja enn í blaðamanni, vikum eftir reynsluaksturinn.