Mercedes Benz CLA

Mercedes Benz CLA er minnsti stallbakurinn frá Mercedes Benz. Bíllinn er afar vígalegur í útliti, kraftmikill og skemmtilegur bíll. Heimili Mercedes Benz á Íslandi er Bílaumboðið Askja.

Bíllinn sem fenginn var til reynsluaksturs er CLA 200d, 4MATIC Coupé. Hann er með 7 þrepa sjálfskiptingu og notar 7,4 lítra af dísel olíu á hverjum hundrað eknum kílómetrum.

Bíllinn er sportlegur í laginu og er allur hinn reffilegasti. Bíllinn virðist eiginlega vera á hreyfingu þó hann standi kyrr.

Innra rými bílsins er vel hannað og notadrjúgt. Hann er nokkuð rúmgóður fyrir fólksbíl í sportlegri kantinum. Fótapláss aftur í er til að mynda ekki of lítið til að vel fari um flesta fullorðna.

Sætin í bílnum eru ofboðslega þægileg og langkeyrsla er ekki kvöð heldur kallar bíllinn hreinlega á að maður taki lengri leiðina, hver sem maður fer.

Innréttingin í bílnum er snyrtileg og afar vönduð. Hún er þægileg í notkun og takkarnir afar vel settir í. Auk þess sem skemmtilegir möguleikar eru í boði hvað varðar lýsingu inn í bílnum. Hægt er að stilla lit hennar sem gefur ákveðna kosti á að mynda stemmingu sem hentar hverju sinni. Rautt þegar á að fara hratt, ekki of hratt samt og kannski róandi blátt þegar á að taka léttan sunnudags-rúnt.

Staða ökumanns er afar góð og yfirsýn yfir veg er fín. Sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að um sportlegan stallbak er að ræða. Maður upplifir ekki þá tilfinningu að maður sitji alveg ofan í malbikinu.

Kannski er það sérstkalega vegna þess hve vel einangraður hann er. Það er örlítið veghljóð í bílnum en eftir stutta stund hættir maður alveg að taka eftir því.

Ætti ég að kaupa CLA?
Vanti þig stallbak sem hentar við allar aðstæður þá er þetta bíll fyrir þig.

Akstur bílsins er upplifun út af fyrir sig. Fjöðrunin er svo góð að manni finnst maður svífa áfram á töfrateppi og ekki skemmir aflið sem skilar sér í afbragðs skemmtilegum akstri. Það er auðvelt að mæla með Mercedes Benz CLA.

Stallbakar
Raun eyðsla
Hestöfl
Útlit
Gæði
Kalt mat
Verð kr.
GT86
9,5 lítrar
200
8
7
9
6.390.000 – 6.680.000
IS 300h
6,7 lítrar
223
9
8
9
5.630.000
CLA
7,4 lítrar
109-381
9
9
9
4.880.000-9.070.000