Kia Optima PHEV

Kia Optima er fimm manna fólksbíll sem bæði er fáanlegur sem stallbakur og skutbíll. Þá hefur kaupandi einnig val um tengi-tvinnbíl eða þennan klassíska með eingöngu sprengihreyfli. Heimili Kia er Bílaumboðið Askja.

Bíllinn sem fenginn var til reynsluaksturs var tengi-tvinnbíll (PHEV, lesist „fjúff“). Optima-n sem reynsluekið var, er eldrauður skutbíll með 7 þrepa sjálfskiptingu og framhjóladrif. Eins og með aðra bíla í þessum flokki (flokkurinn verandi tengi-tvinnbílar) er fullkomlega ómögulegt að setja fram einhverja eyðslutölu. Það má senda mér póst til að rökræða það en það er eins og það er.

Optima PHEV fer um 50 kílómetra á rafmagninu einu saman ef maður stillir hann þannig að hann tæmi rafhlöðuna áður en hann fer að nota eldsneyti, sem er nokkuð gott og ætti að duga all flestum í daglegri rútíu sinni. Þegar svo ber undir þá eyðir hann engu, að því gefnu að þú, já þú sért dugleg/ur að hlaða bílinn.

Í reynsluakstursbílnum var stýrishiti, sætishiti, Harman/Kardon hátalarakerfi og hann var fagurrauður, var ég búinn að nefna það?

Aksturseiginleikarnir eru góðir, hann býr yfir talsverðri snerpu og guð á himnum hvað hann vinnur á eftir því sem honum er ekið meira. Fyrsta tilfinningin gagnvart bílnum var að hann væri enn annar PHEV bíllinn, þunglamalegur og stirðbusalegur. Það er ekki raunin, alls ekki. Hann hefur mikla snerpu og er ótrúlega skemmtilegur í akstri.

Fjöðrunin í Optima er einstaklega skemmtileg, hann er skarpur í beygjum en ljúflingur í langkeyrslu og hann er afburða góður í að tækla hraðahindranir og holótta vegi. Það er kannski ástæðan fyrir því að hann er vinsæll hjá leigubílstjórum.

*Hliðarskref* – Vinsældir bíla hjá leigubílstjórum gefa oft til kynna hvort bílar eru góðir í langkeyrslu, það kemur heim og saman ef maður pælir í því. Vinsældir hjá leigubílstjórum eru einnig oft merki um litla eyðslu og góða stöðu ökumanns. Þetta er þó alls ekki algilt og leigubílstjórar eru oft og tíðum á bílum sem eru þungir og stirðir í akstri, bara vegna þess að þeir halda tryggð við vörumerki eins og þeir halda, margir hverjir tryggð við Útvarp Sögu (aftur, alls ekki algilt).

Aftur að Optima…

Innréttingin í Optima er einföld, sígild og takkarnir eru allir þar sem maður myndi vænta þeirra. Eins og í Sandgerði (sem og öðrum smábæjum), þá er allt innan seilingar.

Bíllinn er rúmgóður, bæði er skottið stórt fótaplássið aftur í er einnig feyki gott, kannski er það eitthvað sem leigubílstjórar ættu að horfa í, kannski eru þeir að því, hver veit?

Útlit bílsins er smekklegt. Einfaldar línur gera bílinn virðulegan og fallegan að mati blaðamanns.

Ætti ég að kaupa Kia Optima?

Vanti þig hagnýtan fjölskyldubíl með afar gott skott, að minnsta kosti er skutbílaútgáfan með afar gott skott, þá er það ekki spurning. Svo ekki sé nú minnst á kosti þess að eiga slíkan bíl í PHEV útgáfu, sérstaklega ef dagleg rútína þín og þinna er 50 km eða þar um bil.

Endilega hafðu hann svona fagurrauðan líka, það er ekki verra.