Jagúar XF

Jagúar XF er fimm manna stallbakur frá Jagúar sem hefur þægindi og glæsileika í fyrirrúmi. Auk þess er hann þónokkuð röskur. Heimili Jagúar á Íslandi er hjá BL, Sævarhöfða.

Bíllinn sem fenginn var til reynsluaksturs var sjálfskiptur, 8 gíra, fjórhjóladrifinn, dísel með 2,0 lítra vél og í Portfolio útfærslu. Hann notaði 7 lítra á hverjum hundrað eknum kílómetrum.

Jagúar tekst með XF að feta þröngan milliveg lúxus- og sportbíla. Bíllinn er góð blanda af hvoru tveggja. Hann er þægilegur en kemst hratt og örugglega yfir. Veggripið er fínt í XF og fjórhjóladrifið hjálpar þar til.

XF er ofboðslega þægilegur og ökumaður og farþegar nánast ofdekraðir á ferð sinni um götur landsins í þessum bíl. Holur og hraðahindranir eru engin fyrirstaða.

Bíllinn er vel saman settur og þéttur. Hljóðeinangrunin er góð og nánast ekkert veghljóð berst inn í bílinn. Enda væri slík mjög ólíkt Jagúar, svo við því var ekki að búast.

Innrétting bílsins er snotur og þægileg í notkun. Allar aðgerðir, hvort sem það er að setja hita í afturrúðuna, stilla útvarpið eða setja sætishitann í gang er á þeim stað sem búast má við.

Vélin er skemmtileg, aflið er mátulegt. Það er alls ekki yfirþyrmandi en XF er alls enginn snigill. Meira afl væri óþarfi í þessum bíl, enda honum ekki ætlað að vera sá hraðskreiðasti.

Bíllinn er mikill á velli og rúmar vel fimm manneskjur. Skottið er afar djúpt og tekur mikinn farangur.

Útlit bílsins er lýsandi fyrir aksturseiginleika hans. Það má finna sígild Jagúar einkenni og yfirbragðið er fágað, en alls ekki eins og einhver þunglamalegur kastali, hann er nefninlega nokkuð töffaralegur, vígalegur án þess að vera grimmur.

Staða ökumanns er mjög fín, það er vel hægt að hreiðra vel um sig í bílnum. Þegar ökumaður er búinn að koma sér almennilega fyrir þá er vel hægt að aka klukkustundum saman án þess að finna fyrir þreytu.

Ætti ég að kaupa XF?
Bíllinn sem reynsluekið var hafði yfir að búa öllu því helsta sem þarf í íslenska veturinn (og stundum sumurin líka) það er fjórhjóladrif, sætishiti og stýrishiti.

Það er gott að keyra XF svo svarið er já, ef þú ert að leita að stórum rúmgóðum, þægilegum og skemmtilegum fólksbíl þá er XF bíll sem vert er að skoða.