Jagúar XE

Jagúar XE er fimm manna stallbakur frá Jagúar. Hann hefur upp á að bjóða ljúfa blödu sportlegra eiginleika og þæginda. Heimili Jagúar á Íslandi er hjá BL, Sævarhöfða.

Bíllinn sem fenginn var til reynsluaksturs var í R-Sport útfærslu, sjálfskiptur átta gíra dísel, sem notaði 6,8 lítra á hverjum hundrað eknum kílómetrum.

Innréttingin er smekkleg en jafnframt nýtískuleg og sportleg. Takkarnir eru um það bil nákvæmlega þar sem búast má við þeim og allt afþreyingakerfið í heild sinni virkar vel. Rétt eins og búast má við í bíl frá Jaguar Land Rover.

Útlit bílsins er skemmtilega vígalegt, án þess að vera svo sérstakt að það þurfi að venjast því eða læra að meta það. Útlitið er eins og Matl og Appelsín, það virkar fyrir alla. Meira að segja fólk sem innbyrðir ekki sykur svindlar á jólunum.

Aksturseiginleikar bílsins eru afburðagóðir, hann liggur á veginum eins og tjara á yfirbyggingu fólksbíla. Honum tekst ótrúlega vel að glíma við hraðahindranir og harðneskjulega íslenska vegi. Alla jafna myndu bílar sem hafa þessa sportlegu eiginleika vera stífir og hastir á íslenskum vegum. Það er hins vegar ekki raunin.

Aksturstillingarnar eru Normal, Eco og Dynamic, auk þess að Sport stilling er á skiptingunni. Hann hangir þá lengur í gírunum og er ávalt viðbúinn til átaka eins og góður skáti.

Staða ökumanns er mjög góð og það fer vel um ökumann og farþega. Það er því ekki bara gaman að keyra Jagúar XE heldur líka þægilegt. Bíllinn er nokkuð rúmgóður af sportlegum stallbak að vera. Hins vegar er höfuðplássið aftur í ekkert sérstakt fyrir hávaxið fólk, ágætt fyrir okkur sem erum rétt undir meðalhæð.

Aflið í vélinni er ágætt en auðvitað mætti það vera meira. Það er alltaf skemmtilegra, þangað til það fer að vera ógnvekjandi en aflið í prufubílnum er nóg til að skemmtanagildi bílsins er býsna mikið. Hann er 180 hestöfl úr 2,0 lítra vél sem er nokkuð gott og sett í þennan sportlega lúxus búning. Útkoman er skemmtilegur og líflegur bíll sem allir sem hafa gaman af akstri myndu njóta þess að keyra.

Það er einhver óáþreyfanlegur sjarmi yfir Jagúar, kannski er það bara nýungagirnin í Íslendingnum, mér að kitla en ég held það sé eitthvað meira. Það er stíll yfir þessum bílum sem aðrir ná ekki, það er fágaður töffaraskapur sem stendur talsvert framar öðrum vörumerkjum að mati blaðamanns.

Ætti ég að kaupa XE?
Bíllinn er töffaralegur, liggur eins og Húsafellshellan með nokkuð gott skott og vandaður frá A-Ö. Það er ekki mikið um veika bletti.

Bílabálkur mælir með Jagúar XE ef þig langar í Jaaagggg, fáðu þér Jaaaaggg (mikilvægt að Jaaaggg berist fram með rámri röddu).