Jagúar F-Pace

Jagúar F-Pace er fimm manna kraftmikill og reffilegur jeppi frá Jagúar. Heimili Jaguar Land Rover á Íslandi er hjá BL.

Bíllinn sem fenginn var til reynsluaksturs var af R-Sport gerð, með 3,0 lítra dísel vél. Hann var með 8 þrepa sjálfskiptingu. Hann notaði 7,9 lítra á hverjum eknum 100 km í blönduðum akstri sem getur ekki talist mikið fyrir bíl af þessari stærð.

Bíllinn er vel hannaður, hann er rúmgóður en þó ekki tröllvaxinn. Fótaplássið aftur í er fínt, dugar vel fullorðnum.

Skottið er einnig nokkuð rúmgott og bíllinn er því notadrjúgur og sportlegur. Blanda sem tekst ekki alltaf að tvinna saman en í Jagúar F-Pace tekst það mjög vel.

Staða ökumanns er mjög góð í bílnum, maður hreiðrar um sig í ökumannssætinu og þaðan er allt innan seilingar. Það er ekkert nauðsynlegt að hafa ákveðinn áfangastað í huga þegar Jagúar F-Pace er ekið. Maður hreinlega keyrir til að njóta.

Bíllinn er vel búinn að staðaldri og svo má dunda sér við að bæta við öllum mögulegum aukabúnaði. Hér má sjá verðlistann fyrir F-Pace.

Afþreyingarkerfið er gott og aðgengilegt, það tekur smástund að setja sig inn í það en um leið og maður er búinn að fikta sig aðeins áfram þá er það auðvelt í notkun.

Útlit bílsins er að mati blaðamanns mjög gott. Hann er afskaplega töff og reffilegur, án þess að vera of áberandi. Fólk tekur eftir manni á F-Pace en það er jákvæð eftirtekt, það horfir enginn á mann með hryllingssvip. Jagúar hefur tekist að yfirfæra sportlegt útlit sportbílanna yfir á jeppann sem er vel af sér vikið.

Bíllinn er afskaplega skemmtilegur í akstri. Hann steinliggur á veginum. Hann er eins fastur á vegnum og rauðvínsblettur í hvítri flík, nema á jákvæðan hátt.

Bíllinn er nokkuð hljóðlátur og mjög gegnheill. Ökumaður þreytist ekkert á að keyra bílinn, langkeyrslur eða stutt snatt verða að upplifun, sem er nákvæmlega það sem bílar sem þessi eiga að snúast um.

Ætti ég að fá mér F-Pace?
Ef þig vantar jeppa sem ræður vel við íslenskar aðstæður og býður upp á afbragðs aksturseiginleika, þá já. Það er vert að benda á að verðið er lægra en flestir halda, samanber töflu hér að neðan.

Bílabálkur mælir með bílnum við alla sem eru að skoða bíla í þessum stærðarflokki. Því fleiri á götum landsins því betra!

Jeppar
Raun eyðsla
Hestöfl
Útlit
Gæði
Kalt mat
Verð kr.
X5
9,8 lítrar
231-381
9
9
10
8.490.000 – 13.390.000
X5 PHEV
afstætt
313
9
10
9
9.490.000
Discovery Sport
6,5 lítrar
150-240
8
9
9
6.190.000 – 8.690.000
Evoque
7,8 lítrar
150-240
9
9
9
6.190.000 – 11.490.000
NX 300h
8,7 lítrar
197
9
9
9
6.930.000
F-Pace
7,9 lítrar
180-380
9
9
10
7.490.000-14.690.000