BL hefur hafið sölu á Jagúar bílum. Jagúar er þar með kominn til Íslands! Því ber að fagna. Enda veglegir bílar sem auðga íslensku bílaflóruna. Jagúar má skoða nánar hér.

Margir hugsa eflaust, það er sko komið góðæri aftur þegar Jagúar er kominn í sölu á Íslandi. Það er komið 2007 aftur og allt sem því fylgir… Undirritaður blæs á þetta. BL er full alvara í þeim áformum sínum að gera Jagúar kleift að skjóta rótum á íslenskum markaði. Verðið mun líka koma þægilega á óvart.

Mikill metnaður hefur verið lagður í kynningu á vörumerkinu. Bílablaðamönnum var sem dæmi boðið í veglegan bíltúr í þeim útfærslum sem lögð verður áhersla á að hafa til sölu hér á landi. Haldin var vegleg sýning í Listasafni Reykjavíkur í lok febrúar þar sem gullfallegur E-Type var til sýnis ásamt flunkunýjum F-Type.

Bílar í boði: XE, XF og F-Pace eru þeir bílar sem lögð er áherlsa á að hafa í boði. Bílabálkur hefur þegar fengið F-Pace til reynsluaksturs og birt bálk um bílinn. Sjá hér. Einnig verður í boði að kaupa XJ og mögulegt er að kaupa F-Type. Raunar er öll línan í boði.

Ætla má að F-Pace vekji sérstaklega mikla lukku hjá íslenskum ökumönnum. Bíllinn er afar smekklegur, töff og kraftmikill. Hann er líka hægt að fá fjórhjóladrifinn og dísel. BL leggur áherslu á þá bíla, sem er vel.
Fylgifiskur þess að taka inn nýtt vörumerki á íslenskan bílamarkað er til að mynda þjónustuverkstæði og varahlutaverslun. Þessi þjónusta mun vera í umsjá BL.

Framundan hjá Jagúar er til að mynda nýr bíll sem ber nanfið I-Pace, sem er rafknúinn fjölskyldubíll sem er einungis 4 sekúndur upp í 100 km/klst. Hann er væntanlegur á markað á næsta ári. Auk þess eru framundan nýjar höfðustöðvar Jaguar Land Rover á Íslandi.

Heimili Jagúar á Íslandi er sem stendur að Sævarhöfða 2, í Reykjavík. Ætlunin er að bílar Jaguar Land Rover, fyrirtækisins sem rekur eins og nafnið gefur til kynna verksmiðjur Jagúar og Land Rover, verði í sérhúsnæði í náinni framtíð, húsnæði sem byggt verður samkvæmt stöðlum móðurfélagsins. Slík framkvæmd sýnir raunar hversu mikil alvara er á bak við innflutning BL á Jagúar.
Undirritaður vill koma á framfæri sérstökum þökkum til BL fyrir að auðga íslensku bílaflóruna með Jagúar. Það er gaman að sjá þessa bíla á götum landsins.