Hyundai Tucson

Hyundai Tucson er fimm manna jepplingur. Bíllinn er vel búinn og þægilegur í akstri og umgengni. Það virtist sem ekkert gæti stöðvað hann. Reynsluaksturinn fór fram í hálku og stundum krefjandi aðstæðum en Tucson afgreiddi það allt með glans.

Bíllinn sem fenginn var til reynsluaksturs var Style útgáfan, svoleiðis bíll kostar 6.790.000 kr og er einn með öllu eins og sagt er.

Bíllinn notaði 8,8 lítra af dísel á hverja 100 ekna kílómetra í blönduðum akstri. Hann er sjálfskiptur sex gíra.

Hiti í sætum og hiti í stýri. Stýrishiti er einhver besta fjárfesting og besti innflutningur sem hægt er að gera með nýjan bíl. Ef kalt mat er lagt á hlutina skiptir raunverulega ekki miklu máli hvort bíllinn þinn eyði 1 lítra meira eða minna á hverjum hundrað kílómetrum. Er hann er með stýrishita? Það er stóra spurningin, Tucson er með stýrishita sem er stór plús í 10 mánuði á ári hér á klakanum.

Innréttingin í bílnum er snyrtileg, þægileg í notkun og býður upp á kunnulegt umhverfi. Takkarnir eru þannig gerðir að þeir sitja vel í sínu plássi.

Bíllinn er með USB og AUX tengi, svo tæknina skortir ekki. Eins er snertiskjárinn skemmtilegur og viðmótið í honum vel hannað og auðlært. Það er mjög auðvelt að tengja símann sinn með Bluetooth við bílinn og handfrjálsi símbúnaðurinn virkar vel.

Sætin eru mjög góð þau eru rafstillt og þægileg, eins er staða ökumanns góð og yfirsýn yfir veginn framundan góð.

Bíllinn er með viðvörun í hliðarspeglum, sem vara ökumann við að skipta ekki um akrein nema að pláss sé fyrir hann á akreininni sem hann ætlar yfir á. Það er áttaviti í baksýnisspegli, hraðastillir og aðgerðastýri.

Tucson er hljóðlátur og þýður í akstri. Hæðin á bílnum er góð, það er þægilegt að setjast inn í hann og stíga út úr honum, svo hann hakar í öll réttu boxin þar, sem jepplingur. Fjórhjóladrifinn Tucson ætti að komast nánast hvað sem er.

Bíllinn er rúmgóður, bæði er fótapláss aftur í gott og skottið er frekar rúmgott líka.

Ætti ég að kaupa Tucson?
Jepplingamarkaðurinn er gjörsamlega stappaður af möguleikum og allir bílaframleiðendur keppast við að smíða hinn fullkomna jeppling. Hyundai tekst afar vel upp með Tucson og það er hiklaust hægt að mæla með honum.

Bíllinn gæti hentað vel fyrir fjölskyldur, sem og ömmu og afa sem hafa gaman af ferðalögum innanlands eða fara upp í bústað hverja helgi. Fyrir tæpar fimm milljónir upp í rúmar sjö er Tucson góður bíll á sanngjörnu verði.

Jepplingar
Raun eyðsla
Hestöfl
Útlit
Gæði
Kalt mat
Verð kr.
Discovery Sport
6,5 lítrar
150-240
8
9
9
7.190.000 – 10.690.000
S-Cross
6,7 lítrar
120
8
8
8
3.890.000 – 5.980.000
Captur
5,9 lítrar
90
8
7
7
3.390.000 – 3.690.000
Evoque
7,8 lítrar
150-240
9
9
9
7.990.000 – 12.790.000
Tucson
8,8 lítrar
140
8
8
8
4.790.000 – 7.190.000
Vitara
8,0 lítrar
136-177
8
8
8
4.980.000 – 5.360.000
NX 300h
8,7 lítrar
197
9
9
9
7.150.000