Hyundai Kona

Kona er fimm manna jepplingur frá Hyundai sem kom nýr á markað á síðasta ári. Það er alltaf gaman að prófa fyrstu árgerð nýrrar undirtegundar. Heimili Hyundai á Íslandi er hjá BL Kauptúni.

Bíllinn sem fenginn var til reynsluaksturs var með 1,6 lítra bensínvél sem skilar 177 hestöflum og hann togar 265 NM þegar mest lætur. Hann notaði 8,3 lítra á hverjum hundrað eknum kílómetrum. Hann er auk þess fjórhjóladrifinn og sjálfskiptur, honum er hægt að læsa, það er að segja bæði hurðum og drifi. Bíllinn er því sniðinn fyrir íslenskar aðstæður.

Bíllinn er nettur að utan og honum er auðvelt að leggja en það er gott pláss í bílnum þrátt fyrir það.

Innvolsið er smekklegt, einfalt og þægilegt í notkun. Innréttingin sjálf er einföld, laus við allt prjál en vönduð. Takkarnir gera nákvæmlega það sem ætlast er til af þeim, auk þess sem þeir eru innan seilingar og ekkert til sem heitir flækjustig í þeim málum.

Sætin í Kona eruþægileg og höfuðpúðinn er sérstaklega góður. Undirritaður áttar sig á því að það er svona eins og að segja að handföngin á hurðunum séu þægileg, þetta er venjulega bara þarna og virkar, en í Kona eru höfuðpúðarnir einstakir og framúrskarandi.


Þægilegir höfuðpúðar koma sér sérstaklega vel í Kona þar sem krafturinn í 1,6 lítra vélinni er brjálsemi líkastur.

„Kona er eins og fermingarveisla á hvítasunnudegi sem breytist á svipstundu í góða þrítugsafmælisveislu með opnum bar og það er frí daginn eftir.“

Skottið í Kona er nokkuð gott miðað við stærð bílsins sem er eins og áður sagði frekar smávaxinn, án þess að það komi að sök.

Aksturseiginleikar bílsins eru góðir, hann liggur vel í beygjum og það er sama hvernig aðstæðurnar eru, fjórhjóladrifið borðar allt sem að kjafti kemur. Þegar torfærunum líkur er hægt að setja í Eco, Comfort og Sport. Akstursstillingarnar hafa þær afleiðingar sem nafn þeirra lýsir.

Fótaplássið aftur í Kona er ágætt fyrir bíl af þessari stærð, það er ekkert dansgólf en það fer afar vel um tvo fullorðna aftur í.

Ætti ég að kaupa Kona?
Já, vanti þig borgarjeppa sem er fær um að glíma við færðina á Íslandi á verstu dögum og getur glatt ökumann alla daga. Það er óhætt að mæla fullum fetum með Kona.

Kona er á ágætu verði hann byrjar í 3.590.000 kr. og fer upp í 5.290.000 kr.