Hyundai Ioniq EV

Hyundai Ioniq EV er fimm manna rafmagns stallbakur frá Hyundai. Heimili Hyundai á Íslandi er BL.

Bíllinn sem fenginn var til reynsluaksturs var eins og áður segir, rafmagnsbíll. Í stað eyðslu er því rétt að tala um drægni, Ioniq dregur rúmlega 200 kílómetra á fullri hleðslu í blönduðum akstri.

Það er óhætt að segja að innanbæjarakstur sé góður fyrir drægnina, enda hleður bíllinn sig við hemlun og þegar slegið er af. Á hinn bóginn er drægnin þar af leiðandi ekki alveg eins mikil á langkeyrslu, enda færri tækifæri til að hlaða rafhlöðurnar við hemlun.

Endurhleðslan í bílnum er mjög áhugaverð pæling. Stilla má hversu mikil „mótorbremsa“ er þegar slegið er af, en auðvitað er ekki um slíka hemlun að ræða heldur eru rafalar að taka til við að hlaða rafhlöðurnar og auka þar með drægnina. Hægt er að stilla frá engri „mótorbremsu“ upp í smá, aðeins meira og yfir í það sem hleður mest og þá tekur bíllinn duglega á móti þegar slegið er af í akstri. Einnig er hægt með lægni að finna jafnvægi á inngjöfinni og gera þetta mjög mjúklega og skemmtilega.

Bíllinn sjálfur er afar þægilegur, hann hefur upp á að bjóða einkar rúmgott farþegarými. Nóg pláss er fyrir allt og alla. Skottið er þar að auki nokkuð gott.

Innréttingin er fáguð og laus við allt pjátur. Hún er hönnuð til að vera notendavæn, það skín í gegn.

Útlit bílsins er sportlegt og stílhreint. Hann er með góða blöndu mjúkra og hvassra lína. Hönnuðum bílsins hefur ekki þurft nauðsynlegt að láta hann líta út fyrir að vera augljóslega rafmangsbíll. Það eru vissulega vísbendingar sem er í góðu lagi en hann er ekki einkennilegur bara til að allir viti að þú ert á rafmagnsbíl. Sem er vel að mati blaðamanns.

Stilla má bílinn í Eco, Normal og Sport og hann er einkar skemmtilegur í akstri, sérstaklega í Sport. Þá er hann fljótur upp og líflegur í akstri.

Bíllinn er vel búinn og hægt að fá með öllum nýjustu tólum. Gagnvirkur hraðastillir er staðalbúnaður, sem dæmi. Eins er hægt að fá hita í öll sæti og stýri og margt margt fleira.

Ætti ég að kaupa Ioniq EV?
Já, ef þig vantar hefðbundin, vandaðan og góðan bíl sem sinnir öllum þörfum hins almenna notanda vel og gerir það á rafmagni, þá er þetta klárlega bíll fyrir þig.

Ioniq er ekki bara góður rafmangsbíll, heldur einfaldlega góður bíll, punktur. Jafnvel hörðustu bensínhausar ættu að prófa Ioniq og finna að það er von, þegar eldsneytið verður hætt að vera kostur. Ioniq er hér til að sýna og sanna að bílar verða áfram, nokkurnveginn eins og bílar hafa verið. Eini hausverkurinn er raunverulega hvort velja eigi tengiltvinn-útgáfuna eða hreina rafmagnsútgáfu. Það er þó hvers og eins að gera upp við sig. Báðir eru þeir framúrskarandi góðir fólksbílar á sanngjörnu verði.

Stallbakar
Raun eyðsla/drægni
Hestöfl
Útlit
Gæði
Kalt mat
Verð kr.
Corolla
7,3 lítrar
90-132
7
8
7
3.180.000 – 4.280.000
Avensis
7,8 lítrar
112-147
7
8
7
3.320.000 – 6.070.000
C-Class
10,2 lítrar
116-510
9
10
9
5.450.000 – 14.410.000
Ioniq EV
200+ km
120
8
9
9
3.890.000 – 4.390.000
Ioniq Hybrid
4,9 lítrar
106/60
8
9
9
4.490.000 – 4.790.000