BMW 5

BMW 5 er holdgervingur sportlega fólksbílsins. Þeir gerast vart frægari bílarnir en BMW 5. Nýja „Fimman“ eins og bílarnir eru gjarnan kallaðir var kynnt til sögunnar á landinu fyrr á þessu ári. Það er alltaf stór stund; það er sérstaklega mikið undir hjá BMW þegar ný Fimma er kynnt. Heimili BMW á Íslandi er hjá BL.

Bíllinn sem fenginn var til reynsluaksturs var 520d útgáfan sem er tveggja lítra dísel útgáfan af Fimmunni. Bíllinn notaði 7,7 lítra á hverjum hundrað eknum kílómetrum.

Reynsluakstursbíllinn var klett hlaðinn aukabúnaði. Til að tipla á því helsta er hægt að nefna: sætishita fram í og aftur í, flott myndavélakerfi, ofan á aftan á og framan á, sætaminni, fjarlægðar stýrður hraðastillir, Bluetooth, USB, splittað hólf á milli sætanna, Harman Kardon hátalarar, skjár í framrúðunni sem sýnir hraða, biðskyldur og stöðvunarskyldur.

Aflið er mjög gott en því er skilað á einkar þægilegan máta. Það þarf ekki að standa í jólaföndri við inngjöfina í hvert skipti sem stendur til að aka af stað eða inn í hringtorg til að mynda. Glimmerið flýgur ekki um allan bíl. Hann líður mjög vel áfram og er öruggur í öllum hreyfingum, enginn asi á neinu og ekkert fát.

Innréttingin er afskaplega þétt og gegneil. Það er allt á þeim stöðum sem ætla má og ekkert sem kemur á óvart þar, nema þá kannski helst hvað hún er vel samsett, þá meina ég afskaplega vel samsett. Hún er líka töff, sem er ekki verra, því það er svo gott að aka bílnum að eigandinn er líklegur til að vilja gera mikið af því. Það er því gott að innvolsið er vel hannað. Það er gott að vera þar.

Aksturstillingarnar eru: Eco, Comfort og Sport. Bíllinn breytir um ham þegar sett er í Sport og hann verður alvörugefinn Sport-bíll. Þvílíkur eðalvagn.

Er bíllinn þægilegur? Já hann er afskaplega hljóðlátur og vandaður. Sætin eru ofboðslega þægileg og þau er hægt að stilla á hina ýmsustu vegu og því ætti hver og einn að geta fundið stillingu sem hentar sér. Ekki skemmir svo fyrir að hafa sætaminnið sem man hvernig þér fannst best að hafa sætin stillt.

Bíllinn er býsna rúmgóður, það er gott pláss fram í fyrir ökumann og farþega og nægjanlegt rými til að það fari vel um alla en ekki of mikið. Ökmaður og farþegi eru ekki hvor í sínu póstnúmerinu. Fótaplássið aftur í er gjöfullega skammtað.

Skottið er nokkuð gott.

Ætti ég að kaupa nýju Fimmuna?
Já, þetta er ofboðslega þægilegur bíll. Hann er þó frekar stórvaxinn og það má ekki gleyma að bílastæði eru frekar þröng hér á Íslandi. Það þarf því að vanda sig við að leggja honum. Það er samt vert að athuga að það er svo gott og gaman að aka bílnum að honum er strax fyrirgefið að vera sver. Það er enginn fullkominn en nýja fimman kemst fjári nálægt því.

Stallbakar
Raun eyðsla
Hestöfl
Útlit
Gæði
Kalt mat
Verð kr.
GT86
9,5 lítrar
200
8
7
9
6.390.000 – 6.680.000
IS 300h
6,7 lítrar
223
9
8
9
5.630.000
CLA
7,4 lítrar
109-381
9
9
9
4.820.000-9.010.000
BMW 5
7,7 lítrar
190-340
9
9
9
7.290.000-10.090.000