Audi Q7 e-tron

Q7 er fimm manna lúxusjeppi frá Audi, sem hægt er að fá sjö manna. Heimili Audi á Íslandi er Hekla bílaumboð.

Bíllinn sem fenginn var til reynsluaksturs er af e-tron útfærslunni, hann er því tengitvinnbíll. Í slíkum bílum er ómögulegt að meta eyðsluna. Enda veltur hún fullkomlega á því hversu iðinn eigandi er við að hlaða og hversu langur aksturinn er hverju sinni.

Q7 e-tron er með 8 gíra sjálfskiptingu og V6 TDI díselvél. Þar að auki er bíllinn búinn skemmtilegu fjórhjóladrifi. Q7 e-tron fer um það bil 35 kílómetra á rafmagninu einu saman, ef hann er full hlaðinn. Nóg tæknihjal… hvernig er að aka honum?

Um lúxusvagn er að ræða og er rétt að miða restina af umfjölluninni við þá staðreynd. Bíllinn kemur til með að stjana við eigendur sína.

Aksturseiginleikar bílsins eru einstakir. Bíllinn er einkar kraftmikill, hann er 373 hestöfl og togar 700 Nm. Sem er býsna gott. Aksturinn verður léttur, ljúfur og til þess fallinn að bæta skap ökumanns.

 

Hvað varðar beygjur, holur og hraðahindranir, þá er vert að nefna að fjöðrunin er í senn hönnuð til að minnka vagg og veltu og þar af leiðandi þokkalega stíf, hins vegar er alls ekki eins og holur og hraðahindranir séu hrilliegar fyrirstöður þegar maður ekur um á Audi Q7 e-tron, þvert á móti þá tekst hann vel á við slíkar áskoranir.

Hann steinliggur í beygjum og þegar reynsluaksturinn fór fram var mikill snjór á götum og reyndi því talsvert á fjórhjóladrifið. Það svínvirkaði, sem er vel.

Innréttingin er smekkleg, maður væntir þess venjulega að innréttingin og takkaborðið sé smekkfullt af tökkum í þessum lúxusjeppum. Þeir eiga jú að geta gert um það bil allt. Sú er ekki raunin í Q7 eins og myndin sýnir, það er frekar einfalt að átta sig og stilla allt mögulegt. Skjárinn kemur upp úr mælaborðinu.

Hvað pláss varðar er Q7 framarlega meðal jafningja, það er nóg pláss í skottinu og fótapláss aftur í er afar, já afar gott, Tryggvi Snær Hlinason ætti jafnvel gott með að tilla sér aftur í.

Q7 hefur upp á að bjóða ótrúlegan munað á fjórum hjólum sem enurspeglast ekki í verðinu… verðið er lægra en maður hefði haldið eftir að hafa reynsluekið bílnum.

Ætti ég að kaupa Q7?
Vanti þig skemmtilegan, rúmgóðan lúxusjeppa og verðið er ekki fyrirstaða þá er þetta afar góður bíll.

Hvað verðið varðar er rétt að taka fram að fyrir 10.420.000 kr. ertu að fá gríðarlega mikinn bíl og ef daglegt amstur þitt er innan sirka 40 kílómetra radíus má réttlæta kaupin með sparnaði við díselinnkaup.