Annáll Bílabálks – 2017

Áramótin eru árlegur tími undir lok hvers desembermánaðar hjá Bílabálk. Þá er gott að líta yfir farinn veg [orðagrín] og skoða það sem hefur fari vel og það sem hefur farið illa á árinu.

Markmiðið með annál þessum er að gera upp bestu og verstu bíla ársins á stuttan og hnitmiðaðan hátt.

Þá verður bíll ársins ekki valinn… það er búið að því Peugeot 3008, bæði hérlendis og erlendis (í Evrópu a.m.k.). Bílabálkur fékk í fyrsta skipti að taka þátt í valinu í ár, enda tiltölulega nýr af nálinni í samanburði við reynslubankana sem tóku auk hans þátt í valinu.

Í staðinn verða veitt verðlaun í flokkum sem ætlað er að vera frumlegir og allt að því fyndnir þegar kemur að bílum. Þá er vert að hafa í huga að bílarnir sem koma til greina í valinu eru einungis þeir sem hafa verið prófaðir og birtir á árinu. Mín síða mínar reglur.

Flokkarnir eru:
Tískuslys ársins, bylting ársins, hvaðan kom þetta ársins, nýliði ársins og að lokum Kudos ársins [stolið frá Strava].

Tískuslys ársins er einfalt og hlýtur að fara til umdeildasta afturenda síðari ára (ekki Kim Kardashian) [held að þetta sé rétt skrifað].

Afturhlerinn á Land Rover Discovery, hlýtur þennan vafasama heiður í ár. Númerið er einfaldlega ekki nógu langt til vinstri, eins og það var á eldri útgáfum. Það er óþægilega nálægt því að vera miðjusett en er það samt ekki. Að ÖLLU öðru leyti framúrskarandi bifreið.

Umbylting ársins, hver hefur náð mestum viðsnúningi á árinu. Það er að segja hver hefur sigrað sitt gamla sjálf með mestu tilþrifunum?

Hyundai! Hefur að mati Bílabálks skarað fram úr á árinu, bæði nýr i30 [Deitbíllinn hans Króla] og Ioniq í Hybrid og rafmangsútgáfum eru afburða bílar. Ioniq sýnir að framtíðarsýn Hyundai er spennandi og verðug þess að fylgjast vel með. Hlaðbakurinn i30 er skuggalega líflegur og sprækur bíll, þar að auki er hann vel hannaður og vel smíðaður. Vel gert Hyundai.

Á þessum nótum er vert að nefna á mjög minimalískan hátt [ég vil biðja ömmu mína afsökunar á ensku-skotinu]. Hvaða kom þetta ársins fer til Hyundai i30, án frekari málalenginga.

Kudos ársins [stolið frá Strava] er fyrir stabílan [fyrirgefðu amma] framleiðandan sem gerir hlutina almennt vel og hefur metnaðinn að fyrirrúmi og skilar sínu. Í ár verður þeim verðlaunum deilt til Heklu vegna Audi Q5. Sá bíll stenst allar væntingar sem gera má til jepplings frá Audi og vel rúmlega það. Eðalvagn og sagan segir að Plug-in-Hybrid útgáfa sé væntanlega á nýju ári.

Árið 2018 verður spennandi ár í bílabransanum eins og undanfarin ár hafa verið. Bílavölvan spáir hækkandi eldsneytis verði [Skattar, dauði og hækkandi eldsneytisverð og allt það]. Þar að auki spáir völvan Fleiri prófunum á Bílabálk, þær munu berast þéttar og með jafnari hætti en áður hefur þekkst. Lítill fugl hefur þegar haft orð á því a myndbönd verði hugsanlega hluti af umfjöllun Bílabálks á komandi ári.

Völvan leggur til að tengiltvinnbílar muni tröllríða markaðnum á komandi ári og nýjir bílar verði varla kynntir til leiks nema að fáanleg verði tengiltvinn-útgáfa.

Árið 2017 var stórkostlegt, Bílabálkur tekur fagnandi á móti 2018…